Skráning í klúbbinn
  Fréttabréf vikunnar
  Ársskýrsla 2020
Rástímaskráning eða kúlustandur?
  01.02.2021

Síðastliðið sumar þurfti á tilteknum tímabilum að notast við rástímaskráningu á Golfbox vegna reglna um golfiðkun á tímum Covid-19.  Reynslan af því að notast við rástímaskráninguna var góð og margir kostir við það fyrirkomulag. Hins vegar eru ekki allir félagar á eitt sáttir og vilja þeir halda í þá sérstöðu sem kúlustandurinn felur í sér.

Í samræmi við niðurstöðu aðalfundar sem haldinn var 8. desember sl. verður nú kosið um það hvort notast verði við rástímaskráningu á Golfbox eða kúlustandinn næsta sumar, að því gefnu að reglur um samkomutakmarkanir leiði ekki til annarrar niðurstöðu.

Kosningin fer fram með þeim hætti að félagar geta annað hvort:

  •  Sent tölvupóst á kosning@gse.is fyrir klukkan 15:00 laugardaginn 6. febrúar n.k.; 

eða

  •  Komið í golfskálann laugardaginn 6. febrúar n.k. milli klukkan 12:00 og 15:00 og greitt atkvæði.

Skipað hefur verið í kjörnefnd vegna kosningarinnar. Tvö úr kjörnefndinni hafa verið talsmenn þess að taka upp rástímaskráningu á Golfbox og tveir hafa verið talsmenn þess að notast verði við kúlustandinn. 

Ef félagar vilja kjósa með því að senda tölvupóst á kosning@gse.is skal tölvupósturinn innihalda eftirfarandi upplýsingar:

Annað hvort svarið: 

[Ég vil rástímaskráningu á Golfbox] 

eða 

[Ég vil að notast verði við kúlustandinn]. 

Nafn og kennitölu viðkomandi.

Atkvæði sem sent er með tölvupósti er ógilt ef það inniheldur ekki framangreindar upplýsingar.

Um nýtt netfang er að ræða sem var stofnað sérstaklega vegna kosningarinnar. Tölvupóstar sem berast verða ekki opnaðir fyrr en að kosningu lokinni klukkan 15:00 nk. laugardag. Félagar geta einungis kosið einu sinni. Merkt verður við þá sem koma í golfskálann og greiða þar atkvæði svo og þá sem greiða atkvæði með tölvupósti, þegar atkvæði sem þannig berst hefur verið talið.

Kjörnefndin verður látin undirrita trúnaðaryfirlýsingu vegna atkvæðagreiðslunnar.

Niðurstaða kosningarinnar verður tilkynnt og birt um leið og talningu lýkur.

Félagar geta komið sinni skoðun á framfæri á Allir í GSE á facebook.

Stjórnin

Árgjöld vegna 2021
  13.01.2021

Aðalfundur GSE var haldinn þann 8. desember s.l. Á heimasíðu klúbbsins www.gse.is má sjá skýrslu stjórnar fyrir 2020. Á aðalfundinum voru ákveðin árgjöld fyrir árið 2021 sem eru svohljóðandi:

  • 18 ára og yngri: kr. 25.000.
  • 19 - 25 ára: kr. 50.000.
  • Aðrir: kr. 75.000.

Í árgjaldinu er innifalin inneign að fjárhæð 2.000 kr. í verslun í golfskálanum.

Eftirfarandi greiðslumöguleikar eru í boði:

1) Staðgreiðsla. Greiða skal inn á reikning klúbbsins í Landsbankanum nr. 0133-26-013522, kt. 630295-2549. Senda skal staðfestingu um greiðslu á netfangið felagaskra@gse.is. Ef greitt er fyrir fleiri en einn félaga þá skal þess getið í staðfestingunni.

2) Greiðsluseðlar. Greiðslunni skipt í þrennt og birtist í heimabanka félaga. Gjalddagar eru 1. febrúar, 1. mars og 1. apríl. Enginn aukakostnaður bætist við ef greiðsluseðlar birtast í heimabanka.

3) Kreditkort. Ef greitt er með kreditkorti þá er hægt að skipta greiðslunni í 6 jafnar greiðslur frá 1. febrúar til 1. júlí. Þeir sem greiddu með korti í fyrra þurfa ekki að hafa samband, nema þeir vilji nota annað kort en það sem notað var í fyrra. Aðrir sem vilja greiða með kreditkorti hafi samband með því að senda tölvupóst á netfangið felagaskra@gse.is eða í síma 565 3360 fyrir 20. janúar n.k. Ef greitt var með korti í fyrra en ekki er hægt að endurnýja samninginn hjá færsluhirði þá verða gefnir út greiðsluseðlar fyrir árgjaldinu.

Þeir sem ætla ekki að vera áfram í klúbbnum eru vinsamlegast beðnir um að senda tölvupóst á netfangið felagaskra@gse.is eða hringja í símanúmerið 565 3360. Það er talsvert um umsóknir í klúbbinn og því mikilvægt að vita sem fyrst hvort félagar ætla að hætta í klúbbnum.

Að lokum óskum við félagsmönnum gleðilegs árs.

Stjórnin.

Völlurinn opnar á morgun (10.12.2020)
  09.12.2020

Ágætu félagar.

Nú hefur heilbrigðisráðuneytið birt nýja auglýsingu vegna íþróttastarfs.

Á vef ráðuneytisins segir: „Öllum er heimilt að stunda æfingar utandyra sem krefjast ekki snertingar að því gættu að virt sé 2 metra nálægðartakmörkun og að hámarki 10 manns saman“.

Við munum því opna völlinn á morgun. Við minnum á að það þarf að skrá rástíma í golfbox.

Völlurinn er einungis opinn félagsmönnum og leikið á vetrarflatir skv. vetrarreglum.

Við biðjum alla að ganga vel um völlinn og færa bolta af brautum áður en högg er slegið.

Aðalfundur GSE 2020
  25.11.2020

Aðalfundur Golfklúbbsins Setbergs fyrir starfsárið 2020 verður haldinn þriðjudaginn 8. desember n.k.

Vegna þeirra reglna sem eru í gildi um samkomutakmarkanir þá mun fundurinn fara fram með rafrænum hætti í gegnum fjarfundabúnað.

Fundurinn hefst stundvíslega klukkan 20:00.

Dagskrá:

Í upphafi aðalfundar skal kjósa fundarstjóra og fundarritara eftir tilnefningu.

1. Skýrsla formanns.
2. Kynning á skoðuðum ársreikningi félagsins.
3. Umræður um skýrslu formanns og ársreikning sem síðan skal borinn upp til samþykktar.
4. Lagabreytingar.
5. Ákveðið árgjald og önnur gjöld fyrir næsta starfsár.
6. Stjórnarkosning.
    6.1. Kosning þriggja stjórnarmanna til tveggja ára.
    6.2. Kosning formanns.
7. Kosning tveggja skoðunarmanna.
8. Önnur málefni ef einhver eru.

Eftirfarandi breyting á lögum klúbbsins verður lögð fyrir fundinn:

10. grein er svohljóðandi í dag:

10. grein
Stjórn félagsins skal skipuð sjö mönnum sem kosnir eru á aðalfundi. Sex eru kosnir til tveggja ára í senn, þrír í hvert sinn, en formann félagsins skal kjósa sérstaklega til eins árs í senn.
Formaður félagsins er aðalforsvarsmaður þess og kemur hann fram fyrir hönd félags og stjórnar þegar við á, auk þess sem hann stýrir stjórnarfundum og sinnir öðrum þeim verkefnum sem stjórnin kann að fela honum og lög heimila.

Lagt er til að 10. grein verði svohljóðandi (breytingar eru feitletraðar):

10. grein
Stjórn félagsins skal skipuð sjö félagsmönnum sem kosnir eru á aðalfundi. Sex eru kosnir til tveggja ára í senn, þrír í hvert sinn, en formann félagsins skal kjósa sérstaklega til eins árs í senn. Framboð til stjórnar skulu berast á netfang klúbbsins, gse@gse.is, eigi síðar en 10 dögum fyrir aðalfund. Heimilt er að kjósa stjórn með rafrænum hætti.
Formaður félagsins er aðalforsvarsmaður þess og kemur hann fram fyrir hönd félagsins og stjórnar þegar við á, auk þess sem hann stýrir stjórnarfundum og sinnir öðrum þeim verkefnum sem stjórnin kann að fela honum og lög heimila.

Eftirfarandi stjórnarmenn eiga að ganga úr stjórn en þau bjóða sig öll fram til endurkjörs:

Sigrún Eir Héðinsdóttir.
Elín Reynisdóttir.
Karl Ísleifsson.

Formaður klúbbsins, Högni Friðþjófsson, býður sig einnig fram til endurkjörs.

Ef aðrir félagsmenn ætla að bjóða sig fram þá hvetjum við viðkomandi að hafa samband með því að senda tölvupóst á netfang klúbbsins, gse@gse.is. Ef það verður kosning um stjórnarmenn eða formann á aðalfundinum þá verður gert hlé á fundinum og þeir sem eru skráðir á fundinn geta komið í golfskálann frá klukkan 12:00 til 18:00, miðvikudaginn 9. desember og greitt atkvæði. Ef þetta verður niðurstaðan þá mun fundurinn hefjast að nýju með rafrænum hætti klukkan 20:00 þann 9. desember.

Þeir félagsmenn í Golfklúbbnum Setbergi sem ætla að sitja aðalfundinn eru vinsamlegast beðnir um að senda tölvupóst á netfang klúbbsins, gse@gse.is, og tilkynna þátttöku fyrir lok dags þann 6. desember n.k. Senda þarf nafn, kennitölu og netfang. Sent verður fundarboð, með tengli á fundinn, á þá félaga sem tilkynna þátttöku.

Virðingarfyllst, stjórn Golfklúbbsins Setbergs.

Völlurinn er lokaður
  01.11.2020

Vellinum hefur nú verið lokað, a.m.k. til 17. nóvember n.k.

Upplýsingar á GSÍ

  Styrktaraðilar