Ekki verður bætt við fleiri félögum fyrir þetta ár.

Ef þú vilt vera skráð(ur) á biðlista fyrir næsta ár skaltu senda inn umsókn í klúbbinn.
Á heimasíðunni má sjá hlekk inn á umsókn fyrir aðild að klúbbnum.
Aðilar sem sækja um eru skráðir í númeraröð á biðlista fyrir inngöngu í klúbbinn fyrir næsta ár.

Fréttabréf vikunnar
  Fréttabréf Golfklúbbsins Serbergs
   Vikan:   14.5 -  20.5


Dagskrá vikunnar:

Ekkert er á döfinni þessa viku enda þurfa félagar tíma til að koma sér í form.

Félagar eru hvattir til þess að drífa sig út á völl og dusta rykið af sveiflunni.

Fréttir af starfinu síðustu daga:

Hreinsunardagur og opnun sumarflata:

Hreinsunardagurinn fór fram síðastliðinn laugardag og mættu um 50 manns. Vinnan gekk vel, meðlimir tíndu rusl, máluðu hæla, löguðu göngustíga og jöfnuðu sand í glompum svo eitthvað sé nefnt. Eftir vinnuna var opnað inn á sumarflatir og voru klúbbfélagar sammála um að völlurinn komi einstaklega vel undan vetri.

Þessir félagar gerðu nýjan stíg á 2. braut sem var nefndur Vatnsstígur.




Vallarmál:

Vallarstarfsmenn halda áfram vinnu við að koma vellinum í sumarbúning. Til viðbótar við hefðbundin störf á vellinum er búið að bera fljótandi áburð á allar flatir. Flatirnar á æfingasvæðinu eru með sér áburðaráætlun en á þær var borinn korna áburður sem situr lengi í jarðveginum. Um leið og tækifæri gefst verður sáð (yfirsáning) í flatir og þær sandaðar. 8. flötin verður líklega götuð.

Á myndinni eru Arnaldur Freyr Birgisson, sem verður vallarstjóri á Setbergsvelli í sumar og Bjarni Hannesson, sem mun veita vallarstjóra ráðgjöf um áburðargjöf og aðgerðir á vellinum.




Tilboð vikunnar hjá Siggu í skálanum:

Sigga ætlar að vera með ómótstæðileg tilboð í hverri viku í allt sumar. Alla þessa viku verður tilboð á Corny orkustykkjum með súkkulaðibragði. Félagar fá 10 stykki á verði 9 😊.

Nokkur atriði sem við viljum minna á í upphafi sumars:

Pokamerki og kvittanir:
Pokamerki eru afhent í golfskálanum. Þeir sem vilja fá kvittun fyrir greiðslu árgjalds skulu senda tölvupóst á david@keilir.is.

Vinavellir GSE 2018:
Klúbburinn hefur gert gagnkvæma vinavallasamninga við eftirtalda golfklúbba:
Golfklúbbur Hellu: Félagar fá 50% afslátt af vallargjaldi.
Golfklúbbur Borgarness: Félagar fá 50% afslátt af vallargjaldi.
Golfklúbbur Suðurnesja: Félagar greiða kr. 1.500 í vallargjald.

Munum að ganga vel um völlinn, laga boltaför á flötum og gera við kylfuför.

Veðurspáin:

Í sumar munum við fá veðurglögga félaga til þess að segja okkur hvernig veðrið verður í vikunni.
Svali Frostason ríður á vaðið og segir hann að veðrið verði bara fínt. Þar höfum við það. Í gallann og út á völl.

Kylfingur vikunnar:

Í hverri viku verðum við með stutt viðtal við einn kylfing úr klúbbnum en við byrjum á mynd af efnilegum kylfingum sem sóttu golfnámskeið hjá klúbbnum s.l. sumar.