Ekki verður bætt við fleiri félögum fyrir þetta ár.

Ef þú vilt vera skráð(ur) á biðlista fyrir næsta ár skaltu senda inn umsókn í klúbbinn.
Á heimasíðunni má sjá hlekk inn á umsókn fyrir aðild að klúbbnum.
Aðilar sem sækja um eru skráðir í númeraröð á biðlista fyrir inngöngu í klúbbinn fyrir næsta ár.

Fréttabréf vikunnar
  Fréttabréf Golfklúbbsins Serbergs
   Vikan:   4.6. -  10.6

Mánudagur:

Á mánudögum (í dag) eru fráteknir rástímar fyrir konurnar í klúbbnum frá klukkan 17:00 til 18:30.

Þriðjudagur:

Strákarnir ætla sem fyrr að hittast á þriðjudögum klukkan 17:00 í sumar og í fyrsta skiptið á morgun 5. júní.

Eldri strákarnir, þ.e. þeir sem ætla að reyna að komast í öldungasveitina, ætla að byrja á morgun að spila um það hver verður í sveit klúbbsins í sveitakeppni öldunga sem verður leikin í Borgarnesi í ágúst.

Nýliðanámskeið í boði klúbbsins frá 19:00 til 21:00. Vegna veðurs var golfkennslunni fresta s.l. þriðjudag. Farið verður yfir grunnatriðin í sveiflunni og stutta spilinu. Allir klúbbfélagar velkomnir. Kennarar verða Ólafur Jóhannesson og Hrafn Guðlaugsson.

Föstudagur:

Fráteknir rástímar:
Á föstudaginn eru fráteknir rástímar frá klukkan 16:30 til 17:00 (3 - 4 holl frá styrktaraðila sem fara 9 holur).

Málum skálann:
Hópurinn "Velunnarrar Setbergsvallar" var formlega stofnaður á laugardaginn. Hópurinn mun taka að sér ákveðin verkefni á vellinum, s.s. að mála það sem þarf að mála, nýframkvæmdir og fleira. Rætt var um skipulag og þau verkefni sem þarf að sinna sem fyrst. Ákveðið að byrja á því að bera á skálann og pallinn. Stefnt að því að ráðast í þetta á föstudaginn ef veður leyfir.

Laugardagur:

Opið mót:

Skv. mótadagskrá þá er fyrirhugað að hafa opið mót á laugardaginn. Endanleg ákvörðun um hvort mótið verður haldið verður tekin annað kvöld. Upplýsingar um þetta verða birtar á heimasíðu klúbbsins www.gse.is og facebook síðunni Alli r í gse. Stefnt er að því að ræsa út af öllum teigum klukkan 16:00.

Fréttir af starfinu síðustu daga:

Forkeppni bikars var leikin s.l. miðvikudag. 16 efstu í karla- og kvennaflokki komust áfram. Hægt er að sjá hverjir leika saman á facebook síðunni Alli r í gse og á blaði í golfskálanum. Athugið að fyrsta umferð þarf að vera búin í síðasta lagi 11. júní n.k.

Aðsóknin á völlinn hefur aðeins verið að aukast. Völlurinn er kominn í flott ástand og tilefni til þess að hvetja þá sem ekki eru byrjaðir að spila að drífa sig á völlinn.

Vallarmál:

Ekki tókst að sanda flatir í síðustu viku og verður það gert í þessari viku.

Enn er því miður eitthvað í það að hægt verði að opna æfingasvæðið vegna bleytu.

Tilboð vikunnar hjá Siggu í skálanum:

Óbreytt, þ.e. gos og snickers á 500 kr.

Veðrið:

Mál Svala var flutt í síðustu viku og er skemmst frá því að segja að kröfur Svala voru samþykktar af dómstólnum. Við erum Svala afar þakklát að taka við afsökunarbeiðni klúbbsins og samþykkja að vera andlit klúbbsins í sumar.

Svali verður kylfingur vikunnar eftir viku.

Kylfingur vikunnar:

Kylfingur vikunnar er Elísabet Gunnarsdóttir, formaður kvennanefndar. Elísabet eða Lissý eins og hún er kölluð hefur verið í klúbbnum, með smá hléum, frá árinu 1995. Hún minnist þess að hafa farið í fyrsta skiptið á völlinn, tvö saman, með eitt golfsett og eina barnakerru. Eitthvað sem yrði nú seint samþykkt í dag.

Lissý er með 25,9 í forgjöf og er bara nokkuð sátt með það. Besta hringinn lék hún árið 2010 og er löngu kominn tími til þess að bæta hann.

Uppáhalds brautin á vellinum er 8. braut enda hefur hún oftast parað hana.

Lissý sem er sem fyrr segir í forsvari fyrir kvennastarfið í klúbbnum segir það mjög gott. Konurnar starti starfinu með því að hittast í golfskálanum og hittist síðan einu sinni í viku allt sumarið, nánar tiltekið á mánudögum. Mætingin er yfirleitt mjög góð. Konurnar heimsæki vinaklúbbinn, Golfklúbb Suðurnesja og konur þaðan komi einu sinni í heimsókn til þeirra. Haustferðin sé alltaf vinsæl en þá fari konurnar á völl í nágrenni bæjarins, spili þar og borði saman á eftir. Yfir veturinn æfa konurnar púttinn einu sinni í viku frá janúar til apríl. Annars hvetur Lissý allar konur í klúbbnum að taka virkan þátt í starfinu. Sérstaklega þarf að auka þátttöku kvenna í mótum á vegum klúbbsins, s.s. meistaramótinu. Dagskrá sumarsins er auglýst á blaði í golfskálanum. Konurnar eru einnig hvattar til að ganga í facebook hóp kvennastarfsins.

Eitthvað að lokum:

GSE er skemmilegur klúbbur. Mátulega stór, þannig að flestir kannast við þá sem eru að spila þar. Notalegt andrúmsloft er á meðal klúbbfélaga og þannig eigum við að halda því.

Elísabet Gunnarsdóttir að skoða annan golfvöll: