Ekki verður bætt við fleiri félögum fyrir þetta ár.

Ef þú vilt vera skráð(ur) á biðlista fyrir næsta ár skaltu senda inn umsókn í klúbbinn.
Á heimasíðunni má sjá hlekk inn á umsókn fyrir aðild að klúbbnum.
Aðilar sem sækja um eru skráðir í númeraröð á biðlista fyrir inngöngu í klúbbinn fyrir næsta ár.

Fréttabréf vikunnar
  Fréttabréf Golfklúbbsins Serbergs
   Vikan:   21.5 -  27.5

Dagskrá vikunnar:

Engin mót í vikunni.

Kvennastarfið hefst formlega á föstudaginn. Skráning hjá Siggu í skálanum. Þeim konum sem hafa ekki fengið póst um kvennastarfið eða eru komnar í facebook hópinn er bent á að hafa samband við formann kvennanefndar, Elísabetu Gunnarsdóttur (lizein@gmail.com) eða Siggu í síma 565 5690/780 2211.

Fréttir af starfinu síðustu daga:

Ósköp lítið að frétta nema e.t.v. að eina ruslið sem Guðmundur (sjá síðar í fréttabréfinu) var ekki búinn að tína er líklega núna á Egilsstöðum.

Nýliðanámskeið:

Nýliðanámskeið verður haldið þriðjudaginn 29. maí n.k. klukkan 19:00. Farið verður yfir starfið í klúbbnum, helstu golf- og siðareglur ásamt því að farið verður yfir grunnatriðin í sveiflunni og stutta spilinu.

Vallarmál:

Í undirbúningi er að stofna hópinn "Velunnarar Setbergsvallar". Hópurinn mun taka að sér ákveðin verkefni á vellinum, s.s. að mála það sem þarf að mála, nýframkvæmdir og fleira. Stofnfundur verður auglýstur í næsta fréttabréfi.

Boltaför:

Það er gríðarlega mikilvægt að allir lagi boltaför á flötum.

Í neðangreindu myndbandi má sjá hvernig laga skal boltaförin:

https://www.youtube.com/watch?v=GuYXMn4tA10

Tilboð vikunnar hjá Siggu í skálanum:

Kaffi og kleina á 350 kr. Hverju tilboði fylgir eitt hrós að eigin vali.


Veðrið:

Svala Frostasyni hefur verið vikið úr klúbbnum vegna veðursins s.l. viku.

Kylfingur vikunnar:

Plokkarinn, Guðmundur Sigurjónsson.

Guðmundur Sigurjónsson hefur verið afar duglegur að plokka í kringum vatnið og alla hæðina fyrir ofan völlinn.

Við heyrðum í Guðmundi sem segir þetta sitt framlag til klúbbsins. Honum þyki afar vænt um klúbbinn og allt fólkið sem í honum er.

Þetta eru vinir mínir og hjarta mitt er á Setbergsvelli. Hann segist hafa hreinsað svæðið frá Heiðmerkurvegi, í kringum Urriðavatn og allt svæðið fyrir ofan völlinn. Hann og Jón Sigurðsson hafi síðan tínt rusl úr skurðunum.

Guðmundur segist hafa útbúið verkfæri með krók á endanum sem hjálpaði við að losa plast og annað sem var fast við trén og hríslurnar.

Við færum Guðmundi bestu þakkir fyrir þetta framlag til klúbbsins.