Ekki verður bætt við fleiri félögum fyrir þetta ár.

Ef þú vilt vera skráð(ur) á biðlista fyrir næsta ár skaltu senda inn umsókn í klúbbinn.
Á heimasíðunni má sjá hlekk inn á umsókn fyrir aðild að klúbbnum.
Aðilar sem sækja um eru skráðir í númeraröð á biðlista fyrir inngöngu í klúbbinn fyrir næsta ár.

Fréttabréf vikunnar
  Fréttabréf Golfklúbbsins Serbergs
   Vikan:   28.9 -  4.10

Engin bændaglíma í ár.

Ákveðið hefur verið að halda ekki bændaglímu í ár. Sóttvarnarlæknir hefur biðlað til fólks og samtaka að forðast óþarfa fjöldasamkomur og ætlum við að verða við þeim tilmælum.

Við ætlum í staðinn að bjóða þeim sem spila á laugardaginn að taka þátt í léttu „texas scramble“ móti þar sem tveir eru saman í liði og leiknar eru 9 holur á stóra vellinum og 9 holur á litla vellinum. Forgjöf keppenda er lögð saman og deilt í með 6. Skráning á golfbox og ræst út á 10 mínútna fresti. Við biðjum þá sem taka þátt að dvelja ekki of lengi í skálanum að leik loknum svo tryggt sé að tilmælum sóttvarnaryfirvalda um að gestir geti haft 1 metra bil á milli sín sé fylgt.

Mótið verður sett upp frá 11:00 til 14:00. Ekkert þátttökugjald. Þeir sem skrá sig í mótið geta líka leikið annað leikfyrirkomulag, s.s. höggleik, snærisleik, verri bolta (😊) eða bara hvað sem er en það verða veitt létt(víns) verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin í texas scramble mótinu. Það verður ekki verðlaunaafhending en verðlaunin verða til reiðu í golfskálanum þegar allir hafa lokið leik og úrslit liggja fyrir.

Aðgengi að vellinum.

Frá og með laugardeginum verður völlurinn lokaður öðrum en félagsmönnum. Við hvetjum félaga til þess að halda áfram að spila enda er völlurinn í frábæru ástandi. Vallarstjóri kann að loka fyrir skráningu á rástíma á morgnana vegna kulda.

Fréttir af starfinu s.l. vikur.

Karla- og kvennaklúbburinn hafa nú lokið sínu starfi í sumar. Það ber að hrósa og þakka þeim sérstaklega sem hafa haldið utan um starfið í klúbbunum í sumar. Ágústa Hera Birgisdóttir, Guðný Ósk Hauksdóttir og Stefanía Arnardóttir hafa verið í forsvari fyrir kvennaklúbbinn og þeir Árni Björn Erlingsson, Arnar Björnsson og Jón Karl Björnsson fyrir karlaklúbbinn. Það hefur verið virkilega vel að þessu starfi staðið í sumar – takk fyrir það!

Rúsínan í pylsuendanum – bangsamótið – ÚRSLIT.

Konurnar unnu bangsamótið þetta árið og verður bangsinn því rauðklæddur næsta árið.