Ekki verður bætt við fleiri félögum fyrir þetta ár.

Ef þú vilt vera skráð(ur) á biðlista fyrir næsta ár skaltu senda inn umsókn í klúbbinn.
Á heimasíðunni má sjá hlekk inn á umsókn fyrir aðild að klúbbnum.
Aðilar sem sækja um eru skráðir í númeraröð á biðlista fyrir inngöngu í klúbbinn fyrir næsta ár.

Fréttabréf vikunnar
  Fréttabréf Golfklúbbsins Serbergs
   Vikan:   6.7. -  12.7

Ruslatunnur og almenn umgengni:
Eins og félagar hafa tekið eftir þá er búið að taka ruslatunnur af teigum. Aftur á móti eru ruslatunnur við sjötta teig og fyrir aftan níundu flöt. Við biðjum félaga um að flokka rusl í tunnurnar.

Dagskrá vikunnar:

Mánudagur:
Konurnar eiga frátekna rástíma frá klukkan 17:00 til 18:30 á mánudögum.

Sjá nánar á Facebook-síðu kvennaklúbbsins: Kvennaklúbbur GSE. Endilega skráið ykkur í þann hóp ef þið eruð ekki nú þegar skráðar.

Í kvöld klukkan 17:00 er æfing hjá krökkunum sem eru að æfa hjá klúbbnum. Hrafn Guðlaugsson stýrir æfingunni í dag.

Þriðjudagur:
Karlarnir eiga frátekna rástíma frá klukkan 16:30 til 18:30 á þriðjudögum.

Sjá nánar á Facebook-síðu strákanna í klúbbnum: Karlaklúbbur GSE. Endilega skráið ykkur í þann hóp ef þið eruð ekki nú þegar skráðir.

Miðvikudagur til laugardags:

MEISTARAMÓT 2020.

ATHUGIÐ: Þeir sem ekki taka þátt í meistaramótinu geta tekið frá rástíma á golfbox frá 20:00 til 21:00 miðvikudag og fimmtudag og frá 19:00 til 20:00 á föstudeginum. Völlurinn opnar síðan um klukkan 20:00 á laugardeginum. EKKI ER HÆGT AÐ SPILA Á ÖÐRUM TÍMUM VEGNA VINNU VIÐ AÐ GERA VÖLLINN KLÁRAN FYRIR MÓTIÐ.

Rástímar fyrir fyrsta daginn eru komnir inn í Golfbox og einnig hér .

Áætlun fyrir rástíma fyrir fimmtudag til laugardags má sjá hér.

Þátttökugjald:
Kr. 5.000 fyrir þá flokka sem spila 4 daga.
Kr. 4.000 fyrir þá flokka sem spila 3 daga.
Hamborgari með meðlæti er innifalinn í þátttökugjaldinu að lokinni spilamennsku á lokadegi hvers flokks.

Niðurstaða könnunar:

Um 200 félagar svöruðu könnuninni sem send var um daginn og eru niðurstöður sem hér segir:

• Tæp 80% svarenda lesa fréttabréfið reglulega.

• 70% svarenda vildu rástímaskráningu, annað hvort alltaf eða á ákveðnum tímum. Svipaður fjöldi svarenda vildi hafa rástímaskráningu á öllum tímum og sá fjöldi sem vildi sleppa henni alfarið og notast við kúlustandinn.

• 43% vilja fleiri innanfélagsmót.

• 12% komu einhverju á framfæri við klúbbinn. Margar flottar hugmyndir ásamt hrósum til klúbbsins sem við þökkum kærlega fyrir.

Við ætlum að halda okkur við rástímaskráningu á föstudögum í júlí og á ákveðnum tímum. T.d. verður eins og að framan greinir rástímaskráning þann tíma miðvikudag til föstudags sem völlurinn er opinn öðrum en þeim sem taka þátt í meistaramótinu. Við skoðum síðan hvort við aukum vægi rástímaskráningar frá 1. ágúst og út sumarið.