Ekki verður bætt við fleiri félögum fyrir þetta ár.

Ef þú vilt vera skráð(ur) á biðlista fyrir næsta ár skaltu senda inn umsókn í klúbbinn.
Á heimasíðunni má sjá hlekk inn á umsókn fyrir aðild að klúbbnum.
Aðilar sem sækja um eru skráðir í númeraröð á biðlista fyrir inngöngu í klúbbinn fyrir næsta ár.

Sagan

Stofnun Golfklúbbs Setbergs 1994

Stofnfundur klúbbsins var haldinn hinn 27. nóvember 1994 og strax á fyrsta degi gengu 40 félagar í klúbbinn. 

Eftir stofnfundinn hófst hið eiginlega starf hans með því að sótt var um aðild að Íþróttabandalagir Hafnarfjarðar sem er forsenda þess að geta orðið aðili að Golfsambandi Íslands.

Fyrsta stjórnin var þannig skipuð: Friðþjófur Einarsson, formaður, Pétur Einarsson gjaldkeri, Böðvar Hermannsson ritari, Guðlaugur Georgsson meðstjórnandi og Þórarinn Sófusson varaformaður

Sumarið 1995

Þann 6. febrúar 1995 var klúbburinn orðinn fullgildur aðili að Golfsambandinu. 

Byrjað var að grafa fyrir golfskálanum þ. 10. maí 1995 og aðeins 6 vikum síðar var völlurinn og skálinn formlega opnaður með því að Friðþjófur Einarsson, Guðlaugur Georgsson og Eiríkur Smith léku einn hring á vellinum. 

Eftir opnunina fjölgaði meðlimum klúbbsins og í lok fyrsta starfsárs höfðu 127 einstaklingar gerst stofnfélagar í klúbbnum.

Fyrsta meistaramót klúbbsins var haldið í júlí og sigraði Guðlaugur Georgsson opna flokkinn, Haldór Jóhann Harðarson 3. flokkinn og Gunnlaugur Óskarsson sigraði 4. flokk.

Sumarið 1996

Árið 1996 var tekinn í notkun 9 holu par 3 völlur sem reyndist góð viðbót fyrir byrjendur sem eru að stíga sín fyrstu spor í golfíþróttinni. Félagsmönnum fjölgaði mikið og voru orðnir tæplega 200 meðlimir í lok sumars. Kristján Kristjánsson og Lovísa Hermannsdóttir urðu klúbbmeistarar sumarið 1996 og Guðlaugur Georgsson bikarmeistari.

Klúbburinn tók þátt í sveitakeppni GSÍ og endaði í öðru sæti í 5 deild og öðluðust þar með þátttökurétt í 4 deild að ári. 

Fjórir kylfingar náðu draumahögginu á árinu og urðu þar með fyrstu mennirnir til að fara holu í höggi á golfvellinum. Þetta voru þeir Valur B. Sigurðsson GR, Már Hinriksson GR, Hilmar Bjarnason GÖ og Eiríkur Smith sem varð þannig fyrsti klúbbfélaginn að ná þessu afreki. Þess má geta að hann er félagi nr. 1. Kylfingarnir fór allir 2. brautin á "hole in one".

Sumarið 1997

Á þriðja starfsári golfklúbbsins fjölgaði félagsmönnum úr 200 í liðlega 250. 

Stjórnin var þannig skipuð: Friðþjófur Einarsson formaður, Þórarinn Sófusson varaformaður, Pétur Einarsson gjaldkeri, Böðvar Hermannsson meðstjórnandi, Gunnlaugur Guðjónsson ritari. 
Nefndir klúbbsins skipuðu: Halldór Eiríksson, Gunnlaugur Óskarsson, Ólafur Jóhannesson, Kristján Kristjánsson, Högni Friðþjófsson og Guðlaugur Georgsson.

Kristján Kristjánsson og Lovísa Hermannsdóttir urðu klúbbmeistarar annað árið í röð. Bikarmeistari varð Vignir Sigurðsson.

Sveit félagsins sigraði 4. deild sveitakeppnis GSÍ og leikur í 3. deild að ári, sannarlega glæsilegur árangur. 

Einungis tveir kylfingar náðu draumahögginu á árinu en það voru þeir Vignir Sigurðsson á 5. braut og Stefán Pétursson einnig á 5. braut. 

Sumarið 1998

Á fjórða starfsári golfklúbbsins fjölgaði félagsmönnum úr 250 í 280.

Stjórnin var þannig skipuð: Högni Friðþjófsson formaður, Þórarinn Sófusson varaformaður, Pétur Einarsson gjaldkeri, Heimir Sverrisson meðstjórnandi og Gunnlaugur Guðjónsson ritari. 
Nefndir klúbbsins skipuðu: Halldór Eiríksson, Gunnlaugur Óskarsson, Ólafur Jóhannesson, Halldór Þórðarson og Böðvar Hermannsson.

Ólafur Jóhannesson og Lovísa Hermannsdóttir urðu klúbbmeistarar annað árið í röð. Bikarmeistari varð Guðlaugur Georgsson er var þetta í annað skiptið sem hann vann þann titil. Keppt var í fyrsta skipti um titilinn bikarmeistari kvenna og varð það Lovísa Hermannsdóttir sem hlaut þann titil.

Sveit félagsins sigraði 3. deild sveitakeppnis GSÍ sem fram fór á Akranesi og hækkaði þar með enn einu sinni upp um deild. Sveitina skipuðu: Brynjar Jóhannesson, Guðbjörn Ólafsson, Jóhannes Ármannsson, Kristján Kristjánsson og Ólafur Jóhannessonsannarlega glæsilegur árangur. 

Þeir sem fóru holu í höggi á árinu voru Páll Rafnsson 2. hola, Steinn Jóhannesson 2. hola, Andrés Arnarson 5. hola, Þorsteinn Geirsson 5. hola, Ámundi Sigurmundsson 5. hola og Hákon Kristinsson GKG 5 . hola. 
Gunnar Sæmundsson fór áttundu holuna á litla vellinum á einu höggi í 31. des mótinu.

Sigurður Hafsteinsson golfkennari sá um kennslu og voru allir mjög ánægðir með hans störf.