Lokað hefur verið fyrir skráningu á biðlista. Við munum opna aftur fyrir skráningu á biðlista 1. október nk.

  Aðalfundur 2024

  Næstu mót
06
júlí
Meistaramót
02
ágúst
Innanfélagsmót. Texas Scramble
04
ágúst
Opna Setbergsmótið
15
ágúst
Innanfélagsmót – fótboltamótið
30
ágúst
Bangsamótið

Skráning í mót
Leiðbeiningar
Skráningu í meistaramótið er nú lokið
  01.07.2025

Þar sem mikill fjöldi skráði sig til leiks í ár þurfum við að ræsa út í þremur ráshópum frá miðvikudegi til föstudags. Eins þurfum við að skera niður fjölda kylfinga sem leika á lokadeginum, þ.e. laugardeginum 12. júlí, þannig að 16 efstu kylfingarnir í hverjum flokki leika á þeim degi. Þetta hefur fyrst og fremst áhrif á annan, þriðja og fjórða flokk karla. Þátttakendur í þessum flokkum greiða því þátttökugjald líkt og aðrir sem taka þátt í þriggja daga móti.

Þar sem svo margir eru skráðir til leiks verðum við jafnframt að hjálpast að og gæta að leikhraðanum. Dómurum verður uppálagt að fylgjast með þeim sem virða ekki reglur um leikhraða. Hámarkstími til þess að leika 9 holur er tvær klukkustundir og 10 mínútur. Í einhverjum af þeim flokkum sem leika höggleik ætlum við að bæta við þeirri reglu að ekki verði skrifað hærra skor á holu en tvöfalt par. Ber kylfingum í þeim flokkum því að taka leikbolta sinn upp á holu þegar útséð er með að höggafjöldi viðkomandi á þeirri holu nái tvöföldu pari.

Hér fyrir neðan má sjá áætlun fyrir útræsingu í mótinu.

Sunnudagur 6. júlí til þriðjudags 8. júlí


Miðvikudagur 9. júlí til föstudags 11. júlí:

Laugardagur 12. júlí:

 

 

Meistaramót GSE
  25.06.2025

Meistaramót Golfklúbbsins Setbergs verður haldið 6. - 12. júlí
Búið er að opna fyrir skráningu á golf.is undir mótaskrá.

Skráningu lýkur sunnudaginn 29. júní klukkan 23:59.

Öldungaflokkur karla og kvenna og 5. flokkur karla og kvenna, leika í þrjá daga frá sunnudeginum 6. júlí til þriðjudagsins 8. júlí.
Aðrir flokkar leika í fjóra daga frá miðvikudeginum 9. júlí til laugardagsins 12. júlí.
Ekki verður hægt að velja rástíma heldur verður ræst út eftir flokkum. Þetta þýðir að keppendur leika alla dagana með öðrum úr sínum flokki.

Leikið verður í eftirtöldum flokkum:

Karlar:
Meistaraflokkur karla: +[x]–6,5 – höggleikur (teigar: 56).
1. flokkur karla: 6,6 - 10,4 – höggleikur (teigar: 56).
2. flokkur karla: 10,5 – 15,3 – höggleikur (teigar: 56).
3. flokkur karla: 15,4 - 20,5 – höggleikur (teigar: 56).
4. flokkur karla: 20,6 - 29,5 – punktakeppni með forgjöf (teigar: 52).
5. flokkur karla: 29,6 og hærri – punktakeppni með forgjöf (teigar: 52).
Öldungaflokkur karla: 60 – 70 ára - punktakeppni með forgjöf (teigar: 52).
Öldungaflokkur karla: 70 ára og eldri - punktakeppni með forgjöf (teigar: 46).

Konur:
Meistaraflokkur kvenna: +[x]–10,9 – höggleikur (teigar: 52).
1. flokkur kvenna: 11,0 – 18,9 – höggleikur (teigar: 46).
2. flokkur kvenna: 19,0,5 – 24,9 – höggleikur (teigar: 46).
3. flokkur kvenna: 25,0 – 28,9 – höggleikur (teigar: 46).
4. flokkur kvenna: 29,0 – 36,0 – punktakeppni með forgjöf (teigar: 46).
5. flokkur kvenna: 36,1 og hærri – punktakeppni með forgjöf (teigar: 46)
Öldungaflokkur kvenna: 60 ára og eldri - punktakeppni með forgjöf (teigar: 46).

Þátttökugjald:
Kr. 5.000 fyrir þá flokka sem spila fjóra daga.
Kr. 4.000 fyrir þá flokka sem spila þrjá daga.

Eftir að lokað hefur verið fyrir skráningu mun nánara fyrirkomulag á útræsingu verða birt. Horft verður til jafnræðis milli flokka við ákvörðun á rástímum innan dagsins eins og frekast er unnt. Stjórn áskilur sér rétt til þess að breyta framangreindri flokkaskiptingu og fyrirkomulagi að öðru leyti, ef skráning gefur tilefni til.

Verðlaunaafhending fyrir alla flokka verður á laugardeginum um klukkan 20:00. Matur í verðlaunaafhendingu, fyrir þá sem vilja, kostar 4.000 kr.

AFMÆLISMÓT – SETBERGSVÖLLUR 30 ÁRA
  18.06.2025

OPIÐ 9 HOLU MÓT

Í tilefni af því að mánudaginn 23. júní nk. eru liðin 30 ár frá því að Setbergsvöllur opnaði formlega verður haldið opið 9 holu mót á vellinum.

Ræst út frá 09:00 til 19:00

Punktakeppni og höggleikur án forgjafar. Ekki er hægt að vinna til verðlauna í tveimur flokkum, þ.e. í punktakeppninni og höggleiknum.

Hámarksforgjöf er 24 hjá körlum og 28 hjá konum (aðlagað að 9 holum).

VERÐLAUN:
Höggleikur af teigum 56 (karlar):
1. sæti: Vöruúttekt að fjárhæð kr. 50.000.
2. sæti: Vöruúttekt að fjárhæð kr. 40.000.
3. sæti: Vöruúttekt að fjárhæð kr. 30.000.

Höggleikur af teigum 46 (konur):
1. sæti: Vöruúttekt að fjárhæð kr. 50.000.
2. sæti: Vöruúttekt að fjárhæð kr. 40.000.
3. sæti: Vöruúttekt að fjárhæð kr. 30.000.

Punktakeppni (keppendur mega velja teiga (karlar og konur):
1. sæti: Vöruúttekt að fjárhæð kr. 50.000.
2. sæti: Vöruúttekt að fjárhæð kr. 40.000.
3. sæti: Vöruúttekt að fjárhæð kr. 30.000.

Nándarverðlaun:
Næst holu á 2.: Vöruúttekt að fjárhæð kr. 20.000 og 12 Pro V1 boltar.
Næst holu á 5.: Vöruúttekt að fjárhæð kr. 20.000 og 12 Pro V1 boltar.
Næst holu á 8.: Vöruúttekt að fjárhæð kr. 20.000 og 12 Pro V1 boltar.

Þátttökugjald kr. 5.000. Engin teiggjöf en við bjóðum keppendum upp á vöfflu með rjóma, kaffi og heitt súkkulaði.

Allur ágóði af mótinu verður nýttur til þess að bæta æfingaaðstöðuna á vellinum, sérstaklega fyrir barna- og unglingastarf.

Skráning á golf.is undir mótaskrá.

VEGNA UNDIRBÚNINGSVINNU FYRIR MÓTIÐ VERÐUR EKKI HÆGT AÐ FARA ÚT AÐ SPILA EFTIR KLUKKAN 20:00 Á SUNNUDAGINN.

Félagsfundur 2025
  07.06.2025

Félagsfundur GSE var haldinn 4. júní s.l. í sal Félags eldriborgara í Hafnarfiði við Flatahraun.

Dagskrá fundarins og niðurstöður má sjá í fundargerð með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.

Fundargerð

Félagsfundur  miðvikudaginn 4. júní nk.
  26.05.2025

Kæru félagar

Stjórn Golfklúbbsins Setbergs boðar til félagsfundar  miðvikudaginn 4. júní nk.

Fundurinn verður haldinn að Flatahrauni 3, Hafnarfirði (salur félags eldri borgara í Hafnarfirði).

Fundurinn hefst stundvíslega klukkan 18:00.

Dagskrá:

  1. Tillaga um samstarf við Golfklúbbinn Keili vegna uppbyggingar á nýjum golfvelli.

Lagt er til að klúbburinn gangi til samstarfs við Golfklúbbinn Keili vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á nýjum golfvelli í upplandi Hafnarfjarðar. Lagt er til að stjórn klúbbsins verði falið að semja um og útfæra samstarfið.

  1. Tillaga um að lengja tímann sem er frátekinn fyrir karla- og kvennastarfið.

Lagt er til að sá tími sem er frátekinn á mánudögum fyrir kvennaklúbbinn og þriðjudögum fyrir karlaklúbbinn verði lengdur um allt að eina og hálfa klukkustund.

  1. Önnur mál.

Undir liðnum önnur mál verður m.a. fjallað um stöðuna á Setbergsvelli ásamt því að rætt verður um þá möguleika sem eru fyrir hendi ef nýr völlur í Hafnarfirði verður ekki tilbúinn þegar klúbburinn missir núverandi völl.

Greinargerð með tillögu 1:

Klúbburinn, sem er aðili að Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar („ÍBH“), hefur um nokkurra ára skeið sóst eftir nýju landi í Hafnarfirði undir sína starfsemi. Klúbburinn hefur þennan tíma verið á lista ÍBH um forgangsröðun verkefna og styttist nú í að komi að þeim lið, en hann er nú svohljóðandi:

2022-2027 lagður nýr 27 holu golfvöllur fyrir Golfklúbbinn Setberg í samstarfi við Golfklúbbinn Keili og önnur íþróttafélög í Hafnarfirði. Áfram verði unnið að hönnun og öðrum nauðsynlegum undirbúningi. 

Síðastliðið haust óskaði Golfklúbburinn Keilir eftir því að fá meira svæði undir sína starfsemi enda annar núverandi svæði þeirra ekki þeirri eftirspurn sem er í Golfklúbbinn Keili.

Á sama tíma ítrekaði Golfklúbburinn Setberg óskir sínar um að fá svæði undir sína starfsemi enda liggur fyrir að klúbburinn mun missa núverandi aðstöðu á næstu árum.

Bæjarráð Hafnarfjarðar skipaði í framhaldi af þessu starfshóp um verkefnið – Golfklúbburinn Setberg, nýr golfvöllur, framtíðarsvæði. Starfshópurinn hefur unnið þetta verkefni samhliða því að nú á sér stað endurskoðun á aðalskipulagi Hafnarfjarðar.

Starfshópurinn óskað eftir svörum frá báðum golfklúbbunum og sendum við svarbréf fyrr á þessu ári. Í framhaldi af því óskaði starfshópurinn eftir því að klúbbarnir tveir sameinuðust um uppbyggingu á nýjum golfvelli.

Stjórn klúbbsins, framtíðarnefnd og fulltrúar karla-  og kvennaklúbbsins áttu fund og fóru yfir málið. Var þar samþykkt að það þjónaði hagsmunum félaga best að verða við áskorun starfshópsins. Hafa klúbbarnir unnið drög að bréfi sem er svohljóðandi, sem verður sent á starfshópinn, ef tillagan verður samþykkt:

Starfshópur vegna nýs golfvallarsvæðis í Hafnarfirði.

Vísað er til fyrri samskipta milli starfshópsins og Golfklúbbsins Setbergs annars vegar og Golfklúbbsins Keilis hins vegar, vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á nýjum golfvelli í upplandi Hafnarfjarðar.

Fulltrúar starfshópsins hafa átt samskipti við fulltrúa golfklúbbanna í ferlinu og óskað eftir þeirra sjónarmiðum og athugasemdum. Golfklúbbarnir eru sammála um að sameinast um komandi uppbyggingu til heilla fyrir golfíþróttina og samfélagið allt í Hafnarfirði.

Golfklúbbarnir lýsa því hér með yfir vilja til þess að sameinast um verkefnið í samstarfi við starfshópinn. Munu golfklúbbarnir gera með sér samstarfssamning um verkefnið í kjölfar þessa bréfs og koma sér saman um tillögu að verkefnastjóra verkefnisins. Eins og öllum ætti að vera ljóst, er gríðarleg þörf á fleiri golfholum á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega þar sem Golfklúbburinn Setberg mun missa núverandi aðstöðu á næstu árum og ásókn í golfklúbbana er langt umfram það sem núverandi vallarsvæði þeirra getur annað.

Golfklúbbarnir skora hér með á Hafnarfjarðarbæ að hefja þegar í stað nauðsynlega vinnu til þess að uppbyggingin geti hafist sem fyrst. Fyrir liggur umfangsmikil og tímafrek skipulagsvinna og því mikilvægt að hefja ferlið án tafar. Enn fremur er þess farið á leit við Hafnarfjarðarbæ að  tekið verði tillit til framkvæmdarinnar í fjárhagsáætlun bæjarins.

Það er vilji golfklúbbanna að farið verði í verkefnið í fullri sátt við samfélagið og önnur íþróttafélög í Hafnarfirði. Samkvæmt forgangsröðun Íþróttabandalags Hafnarfjarðar, er röðin komin að golfinu.

Virðingarfyllst,

Hafnarfirði, [•] 2025.

F.h. Golfklúbbsins Setbergs:                                                                   F.h. Golfklúbbsins Keilis:

Þar sem þetta er ekki í samræmi við það sem hefur verið samþykkt á aðalfundum klúbbsins á sl. árum ákvað stjórnin að leggja tillöguna fyrir félagsfund. Þetta getur þýtt breyttar áherslur hvað varðar framtíðarsýn klúbbsins, svo sem hvað varðar umsvif í starfseminni, þar til fyrir liggur hvernig rekstur og starfsemi verður á nýjum velli.  

Greinargerð með tillögu 2:

Þátttaka í karla- og kvennastarfinu hefur aukist jafnt og þétt á sl. árum Nú er svo komið að það fyllist mjög fljótt í þá tíma sem eru ætlaðir fyrir þetta starf innan klúbbsins. Á síðasta aðalfundi var rætt að lengja ekki þennan tíma til þess að þeir aðrir félagar, sem ekki taka þátt í karla-  eða kvennastarfinu, geti komist í golf á þessum dögum. Komið hefur fram tillaga að lengja tímann um allt að eina og hálfa klukkustund á hvorum degi, enda reynist þörf á því að lengja tímann. Verður þá heimilt að ráðstafa rástímum frá 14:30 til 19:00 undir þetta starf. Byrjað verði á því að opna rástíma frá 15:30 til 18:30 en sá tími lengdur ef mót á mánudegi eða þriðjudegi er orðið fullt sólarhring eftir að skráning opnar fyrir viðkomandi dag.

Þetta starf er að mati stjórnar mjög mikilvægt og virkilega gaman að sjá hvað margir félagar hafa nýtt sér þetta og í mörgum tilvikum eignast nýja vini og spilafélaga. Við megum samt ekki gleyma því að aðrir þurfa líka að komast í golf á þessum dögum. Það verður því að taka tillit til beggja sjónarmiða. Aðrir félagar komast þá fyrir og eftir þá tíma sem ætlaðir eru fyrir þetta starf.  

Virðingarfyllst, stjórn Golfklúbbsins Setbergs. 

  Styrktaraðilar