Ekki verður bætt við fleiri félögum fyrir þetta ár.

Ef þú vilt vera skráð(ur) á biðlista fyrir næsta ár skaltu senda inn umsókn í klúbbinn.
Á heimasíðunni má sjá hlekk inn á umsókn fyrir aðild að klúbbnum.
Aðilar sem sækja um eru skráðir í númeraröð á biðlista fyrir inngöngu í klúbbinn fyrir næsta ár.

  Aðalfundur 2023

  Næstu mót
22
júní
Jónsmessa
29
júní
Opna Vera Design kvennamótið.
07
júlí
Meistaramót
08
júlí
Meistaramót
09
júlí
Meistaramót

  Skráning í klúbbinn
Skráning í mót
Leiðbeiningar
Leikhraði og almennt eftirlit.
  08.06.2024

Leikhraði og almennt eftirlit.

Við viljum (vonandi) öll halda góðum leikhraða á vellinum. Miðað er við að það taki að hámarki 2 klukkustundir og 10 mínútur að leika 9 holur. Á skorkorti og skiltum á vellinum má sjá hversu langur tími á að vera liðinn að hámarki frá því að leikur hófst þegar að leik á holu lýkur. Hér eru nokkur ráð sem voru birt á golf.is:

https://www.golf.is/baettu-leikhradann-god-rad-til-kylfinga/

Við ætlum að auka eftirlit með leikhraða og almennri umgengni á vellinum.
Á ákveðnum tímum verða starfsmenn á vegum klúbbsins á ferð um völlinn að fylgjast með. Við biðjum ykkur að taka vel á móti þeim.

Minni alla á að laga boltaför, jafna aftur sand í glompum og leggja torfusnepla í kylfuför.

Fyrsta brautin lokuð á föstudaginn
  04.06.2024

Á föstudaginn verður fyrsta brautin lokuð frá klukkan 09:00 til klukkan 16:00.
Þeir sem eru að fara að spila í bikarkeppninni geta þó spilað brautina.
Við samþykktum að Golfarinn (sjónvarpsþáttur á Stöð 2) mætti taka upp atriði á brautinni. Þó við höfum almennt lagt áherslu á að hafna beiðnum um að fá völlinn leigðan þá er í þessu tilfelli uppi sjónarmið að styðja við íslenska dagskrárgerð tengt golfíþróttinni og kynna klúbbinn um leið.
Þeir sem eru að fara að spila á föstudaginn á framangreindum tímum þurfa því að byrja á annarri braut. Tilvalið að spila fyrstu þrjár brautirnar á litla vellinum á leiðinni.

Upplýsingar vegna opnunar 2024
  17.05.2024

Ágætu félagar.

SKRÁNING Á RÁSTÍMA
Á morgun, laugardaginn 18. maí, opnum við fyrir að aðrir en félagar geti skráð sig á rástíma. Frá og með þeim degi verðum við með starfsmann á skrifstofu.

Félagar í GSE geta skráð sig á rástíma með fjögurra daga fyrirvara. Skráning opnar klukkan 22:00.
Aðrir geta skráð sig á rástíma 12 klukkustundum fyrir viðkomandi rástíma.

Félagar í GSE geta skráð aðra með sér í holl þegar skráning opnar. Miðað er við að hver félagi skrái ekki fleiri en einn, sem er ekki meðlimur í klúbbnum, með sér í holl. Það er þó hægt að skrá fleiri eins og kerfið er sett upp. Við treystum því að félagar fari rétt með þetta og virði framangreinda reglu þar sem við viljum tryggja aðgengi félaga að rástímum áður en aðrir skrá sig. Ef við sjáum tilefni til þess síðar munum við loka fyrir þennan möguleika. Mun þá skráning utanaðkomandi einstaklinga fara fram í gegnum skrifstofu klúbbsins.

Nokkrar reglur:

 • Kylfingar skulu skrá rástíma í Golfbox appinu áður en þeir hefja leik.
 • Staðfesta skal komu á völlinn, annað hvort í Golfbox appinu eða í afgreiðslu klúbbsins, a.m.k. 10 mínútum fyrir skráðan rástíma.
 • Hyggist kylfingur ekki nýta bókaðan rástíma skal afbóka rástíma með a.m.k. tveggja klukkustunda fyrirvara.
 • Óheimilt er að skrá annan kylfing á rástíma en þann sem hyggst leika völlinn.
 • Óheimilt er að bóka rástíma fyrir kylfing án vitneskju viðkomandi kylfings.

Við tökum ekki frá rástíma fyrir fyrirtæki og hópa. Það er ekki heimilt að búa til mót með því að skrá einn félaga í hvert og eitt holl og fylla síðan hollið með utanaðkomandi kylfingum.

Allar framangreindar reglur miða að því að tryggja aðgengi félaga í klúbbnum að rástímum.

AFREKSÞJÁLFARI OG KENNSLA

Klúbburinn hefur samið við Hauk Má Ólafsson, PGA golfkennara, um að sjá um afreksþjálfun hjá klúbbnum. Nú þegar eru nokkrir krakkar að æfa hjá klúbbnum en markmiðið er að stækka þann hóp.
Haukur mun enn fremur taka að sér einkakennslu á vellinum.

Guðjón G. Daníelsson, PGA golfkennari, sem hefur kennt sl. ár mun áfram taka að sér einkakennslu á vellinum.
Júlíus Hallgrímsson verður með kennslu á vellinum einn dag í viku.

Upplýsingar um Hauk, Guðjón og Júlíus má sjá inn á heimasíðu klúbbsins www.gse.is.

FORKEPPNI BIKARS

Fyrsta mót sumarsins, forkeppni bikars, verður haldið miðvikudaginn 29. maí. Í forkeppninni er leikin 9 holu punktakeppni með forgjöf. 16 efstu komast áfram í karla og kvennaflokki og leika útsláttarkeppni. Sá sem lendir í fyrsta sæti í forkeppninni leikur við þann sem lendir í 16. sæti o.s.frv.
Skráning í mótið fer fram í mótaskrá á golf.is/golfbox. Þar má enn fremur sjá nánar skilmála um mótið, útsláttarkeppnina o.s.frv.
Ekkert þátttökugjald.

GOLFNÁMSKEIÐ OG ÆFINGAR Í SUMAR

Fyrir krakka á aldrinum 8 – 13 ára (fædd 2011 – 2016).

Dagskrá:

 • Farið verður yfir helstu golfsiði og reglur.
 • Farið verður yfir helstu undirstöðuatriði golfíþróttarinnar, s.s. grip, sveiflu, vipp og pútt.
 • Leikið golf á æfingavelli GSE.
 • Allir eiga að taka með sér hollt og gott nesti.
 • Síðasta morguninn verður boðið upp á pylsur ásamt því að allir fá afhent viðurkenningarskjal.

Golfnámskeiðið verður frá klukkan 9:00 til 12:00 frá 10. til 14. júní.
Markmiðið er að vekja áhuga krakkanna á golfíþróttinni. Þeim sem mæta námskeiðið býðst að mæta á skipulagðar æfingar hjá golfklúbbnum að námskeiðinu loknu. Æfingarnar verða einu sinni í viku í sumar, á mánudögum frá klukkan 17:00 til 18:00, í fyrsta sinn þann 24. júní 2024. Með þessu vonumst við til að viðhalda þeim áhuga sem oft myndast hjá krökkum á golfnámskeiðum. Þeir sem taka þátt í námskeiðinu mega spila á æfingavellinum í sumar.
Verð fyrir allt framangreint er 15.000 kr.
Skráning fer fram á Sportabler: https://www.abler.io/shop/gse/
Umsjón með golfnámskeiðinu og æfingunum hefur Haukur Már Ólafsson, PGA golfkennari. Honum til aðstoðar verða ungmenni sem eru að æfa hjá Golfklúbbnum Setbergi.
Nánari upplýsingar má fá með því að senda tölvupóst á netfangið gse@gse.is.

NÝLIÐANÁMSKEIÐ

Miðvikudaginn 22. maí nk. verður haldið nýliðanámskeið.
Námskeiðið byrjar í golfskálanum klukkan 20:00.
Á námskeiðinu verður farið yfir:

 • Golfbox og golf.is.
 • Helstu golfreglur.
 • Helstu siðareglur.
 • Starfið í klúbbnum.

VINAVELLIR

Golfklúbburinn Hella – félagar greiða 4.000 kr.
Golfklúbbur Sandgerðis – félagar fá 50% afslátt af flatargjaldi.
Golfklúbbur Suðurnesja – félagar greiða 4.000 kr.
Golfklúbburinn Leynir, Akranesi – félagar fá 50% afslátt af flatargjaldi.

MEISTARAMÓT GSE

Meistaramótið verður haldið frá 7. til 13. júlí. Auglýsing vegna mótsins verður birt á næstu dögum. Lagt er upp með að sumir flokkar spili í þrjá daga, frá sunnudeginum 7. júlí til þriðjudagsins 9. júlí en aðrir flokkar í 4 daga, frá miðvikudeginum 10. júlí til laugardagsins 13. júlí. Endanleg niðurstaða um þetta mun ráðast af skráningu í mótið. Líklegasta niðurstaðan er að öldungaflokkar karla og kvenna og 5. flokkur karla og kvenna leiki 7. til 9. júlí en aðrir flokkar leiki frá 10. til 13. júlí.

NÝ GJALDSKRÁ VEGNA FLATARGJALDA

9 holur:
Virkir dagar fyrir klukkan 15:00 – 3.500 kr.
Virkir dagar eftir klukkan 15:00 – 5.000 kr.

Helgar fyrir klukkan 15:00 – 5.000 kr.
Helgar eftir klukkan 15:00 – 3.500 kr.

18 holur:
Virkir dagar fyrir klukkan 13:00 – 5.500 kr.
Virkir dagar eftir klukkan 13:00 – 7.000 kr.

Helgar fyrir klukkan 15:00 – 7.000 kr.
Helgar eftir klukkan 15:00 – 5.500 kr.

GOLFBÍLAR

Hægt er leigja golfbíl. Leiguverð fyrir 9 holur er 3.500 kr. Hægt er að kaupa 10 skipta kort og er verðið fyrir það 28.000 kr. Ekki er hægt að tryggja að ávallt sé laus golfbíll en við bjóðum upp á að félagar hringi samdægurs og taki frá golfbíl á ákveðnum tíma innan dagsins.

BIÐLISTI

Að óbreyttu ætlum við ekki að bæta fleiri félögum við á þessu ári. Nokkur fjöldi er á biðlista og það fá allir sama svarið, þ.e. að þeir séu á biðlista fyrir inngöngu í klúbbinn á næsta ári.

Hreinsunardagur og opnun sumarflata.
  08.05.2024

Fimmtudaginn 9. maí nk. verður hreinsunardagur á vellinum. Vinnan hefst klukkan 9:00 og verður unnið til klukkan 12:00.

Við viljum biðja þá sem sjá sér fært að mæta, að skrá sig hér: https://tourentry.golfbox.dk/?cid=4531663

Þeir sem taka þátt í vinnunni geta spilað völlinn að vinnu lokinni inn á sumarflatir. Ræst verður út af öllum teigum samtímis. Stefnum á að byrja að spila um klukkan 13:00. Ekki verður hægt að skrá sig á rástíma þennan dag.

Þeir sem geta mega taka með sér verkfæri (garðhrífur og skóflur).

Boðið verður upp á pylsur að vinnu lokinni.

Völlurinn verður einungis opinn fyrir félaga í klúbbnum fyrst um sinn.

Skráning á rástíma fer fram í gegnum Golfbox. Rástímabókun opnar fjórum dögum fyrir viðkomandi leikdag.

Stjórnin

Fréttabréf
  19.03.2024

Ágætu félagar.

Við viljum vekja athygli á nokkrum atriðum.

Völlurinn er núna einungis opinn fyrir félaga í klúbbnum.

Félagar eiga að skrá sig á rástíma í Golfbox. Það einfaldar allt eftirlit með spili á vellinum.

Við verðum ekki með starfsmann í ræsishúsinu fyrr en í byrjun maí. Vallarstarfsmenn munu því sinna eftirliti á vellinum þangað til og því mjög mikilvægt að þeir geti séð hverjir eru skráðir á rástíma hverju sinni.

Ástand vallarins:

Völlurinn kemur ágætlega undan vetri og ætti að vera í góðu ástandi í sumar. Það ræðst af veðrinu næstu vikur hvenær opnað verður inn á sumarflatir. Við munum auglýsa opnun sumarflata um leið og nákvæm tímasetning liggur fyrir.

Við biðjum þá sem spila í vor að ganga varlega um völlinn og færa bolta af brautum áður en slegið er. Völlurinn er sérstaklega viðkvæmur næstu tvær vikurnar (klaki í jörðu o.s.frv.).

Mótaskrá 2024:

29. maí – Forkeppni bikars.
22. júní – Jónsmessa.
29. júní – Opna Vera Design kvennamótið.
7. til 13. júlí – Meistaramót.
3. ágúst – Innanfélagsmót. Texas Scramble.
7. ágúst – Opna Setbergsmótið.
16. ágúst – Innanfélagsmót – fótboltamótið.
31. ágúst – Bangsamótið.
5. október – Bændaglíma.

Á mánudögum verða fráteknir nokkrir rástímar fyrir konurnar í klúbbnum (kvennatímar).

Á þriðjudögum verða fráteknir nokkrir rástímar fyrir karlana í klúbbnum (karlatímar).

Dagskráin fyrir sumarið hjá kvenna- og karlaklúbbnum verður kynnt í vor.

Konur í klúbbnum eru hvattar til þess að skrá sig í kvennaklúbb GSE á Facebook.
Karlar í klúbbnum eru hvattir til þess að skrá sig í karlaklúbb GSE á Facebook.

Skráning í klúbbinn og greiðsla árgjalds:

Ný útfærsla við innheimtu árgjalda í gegnum Sportabler hefur gengið vel. Við þökkum öllum kærlega fyrir það. Við minnum á að greiðsluseðlar vegna árgjalda birtast í netbanka sem: Æfingagjöld – Greiðslumiðlun Íslands.

Lokað hefur verið fyrir skráningu í klúbbinn á þessu ári. Hægt er að skrá sig á biðlista fyrir inngöngu í klúbbinn fyrir næsta ár á heimasíðu klúbbsins.

Fjölgun félaga og aðgengi að vellinum:

Félögum hefur aðeins fjölgað frá því í fyrra. Til þess að vega á móti þeirri fjölgun ætlum við að sleppa öllum samningum við fyrirtæki.

Við munum enn fremur, líkt og gert var í fyrra, hafna öllum beiðnum um að taka frá rástíma fyrir fyrirtæki og hópa.

Kvittanir fyrir árgjöldum:

Þeir sem vilja fá kvittun fyrir greiðslu árgjalds geta nálgast kvittunina í Sportabler. Enn fremur er hægt að senda beiðni á gse@gse.is.

Upplýsingar um starfsemi klúbbsins í sumar:

Upplýsingar um starfsemi klúbbsins í sumar verða sendar/birtar með eftirfarandi hætti:

 • Undir liðnum fréttir/mikilvæg skilaboð á Golfbox.
 • Á Facebook-síðunni Allir í GSE. Við hvetjum alla félaga að gerast aðilar að þeim hópi.
 • Á heimasíðu klúbbsins www.gse.is.

Ekki verður sendur tölvupóstur en hægt er að breyta stillingum á Golfbox og velja þar að fá tilkynningar sem birtar eru á Golfbox sendar með tölvupósti úr kerfinu (Hlekkur á leiðbeiningar).

Afmælisferð GSE í haust:

Í tilefni af 30 ára afmæli Golfklúbbsins Setbergs verður farið í afmælisferð næsta haust. Upplýsingar um ferðina má sjá hér. Enn eru nokkur sæti laus í ferðina. Ef félagar vilja skrá sig í ferðina eða fá frekari upplýsingar skulu viðkomandi senda tölvupóst á travel@golfskalinn.is.

Stjórnin.

  Styrktaraðilar